Björgvini Guðmundssyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun gert að greiða Pétri Gunnlaugssyni, útvarpsmanni á Útvarpi Sögu, 1.000.000 krónur í lögfræðikostnað og skaðabætur vegna ummæla um Pétur í blaðinu og á vefsíðu þess. Ummælin voru dæmd ómerk.
Myllusetur ehf, sem getur Viðskiptablaðið út, var sýknað af kröfum Péturs um að greiða birtingu dóms og 2.000.000 í miskabætur.
Málavextir eru þeir að í umfjöllun blaðsins í maí síðastliðnum var því haldið fram á vefsíðu Viðskiptablaðsins að Pétur hafi reiðst mjög í viðtali er hann átti við Björn Val Gíslason alþingismann á Útvarpi Sögu, hann hefði rifið í Björn Val og „hent öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu“. Sömu ummæli birtust síðan í blaðinu.
Fréttin hafi síðan verið tekin upp af öðrum netmiðlum.
Hvorki stefnandi né Björn Valur Gíslason þingmaður hafi kannast við lýsingar í umræddri umfjöllun, sem fullyrt var að væru sannar, enda væri enginn fótur fyrir þeirri atburðarás.
Síðar sama dag birtist frétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins, þar sem Pétur var beðinn afsökunar á rangfærslum í fyrri fréttinni og leiðrétting var einnig birt í næsta tölublaði blaðsins.
Í framhaldi af þessu sendi lögmaður Péturs Björgvini bréf, þar sem honum var boðið að málið yrði látið niður falla með greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Björgvin hafnaði því og rökstuddi birtingu fréttarinnar á þann veg að ekki væri um hefðbundinn fréttadálk að ræða, heldur skoðanadálk sem skrifaður væri í tilteknum stíl. Að auki væri búið að koma leiðréttingu á framfæri. Hann sagði ennfremur að tveir heimildamenn hefðu greint honum frá atburðunum sem um ræðir.
Við þetta sættist Pétur ekki, enda taldi hann að æra hans „hefði verið meidd til frambúðar“ eins og segir í dómsskjölum. Því hafi hann ekki séð aðra leið en að leita dóms vegna ummælanna, enda stæðu þau ennþá á vefsíðu Viðskiptablaðsins.
Í dómsorði segir að ekkert hafi komið fram sem styðji fullyrðingar stefnanda um að það hafi verið ásetningur stefnda að skýra ranglega frá og hafa uppi aðdróttanir sem yrðu stefnanda til hnekkis. Þá þykir ósannað er að stefndi hafi átt þátt í því að aðrir fjölmiðlar birtu umfjöllunina í sínum miðlum.
Þá segir að ummælin um Pétur, séu dæmd ómerk, bæði þau sem birtust í blaðinu og á vefsíðu þess.
Fallist var á að í ummælunum fælist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda. Því var fallist á kröfu hans um miskabætur og var Björgvini gert að greiða Pétri 300.000 krónur í miskabætur, auk 700.000 króna í málskostnað.