„Ég minnist þessi varla í minni 40 ára mótmælasögu við þetta sendiráð að hér hafi verið fleiri,“ sagði Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína, en félagið stóð í dag fyrir fjölmennum mótmælum við bandaríska sendiráðið við Laufásveg í Reykjavík.
Tilefni fundarins eru loftárásir Ísraelshers á Gazaströndina, en yfir 100 Palestínumenn hafa fallið síðan árásirnar hófust. Þrír Ísraelsmenn hafa látist eftir að eldflaug var skotið frá Gaza.
Mótmælendur, sem fylltu Laufásveginn, hlýddu á Svein Rúnar og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, en þeir kröfðust þess að loftárásum á Gaza yrði tafarlaust hætt. Fundarmenn héldu á spjöldum þar sem m.a. mátti lesa „Stöðvið blóðbaðið“ og „Rjúfum herkvína“.