Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hvetur fólk til að fjölmenna á mótmælafund fyrir utan bandaríska sendiráðið í dag en fundurinn er haldinn á vegum félagsins Ísland-Palestína. Er Ögmundur einn ræðumanna á fundinum.
Mótmælafundurinn, Stöðvum blóðbaðið, verður haldinn klukkan 17 í dag á Laufásvegi.
Tilefnið eru árásir Ísraelshers og morð á palestínskum borgurum á Gaza ströndinni, samkvæmt tilkynningu en eins og fjölmiðlar um allan heim hafa greint frá hafa verið linnulausar árásir milli Gaza og Ísraels undanfarna daga. Á Gaza hafa tæplega eitthundrað manns látist og þrír Ísraelar.
Ræðumenn verða Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Ahmed Abunahla, jafnréttisnemi við HÍ, frá Gaza.
Fundarstjóri verður Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður FÍP.