Rammaáætlunin afgreidd úr nefnd

Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýting landsvæða, svonefnd rammaáætlun, var afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis nú rétt fyrir hádegi en fundað var um hana í nefndinni í morgun. Var tillagan afgreidd úr nefndinni óbreytt með atkvæðum fulltrúa stjórnarflokkanna.

„Því miður þýðir þessi niðurstaða meirhlutans í nefndinni að þetta sé bara rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar en ekki áætlun til lengri tíma sem víðtæk sátt er um,“ segir Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann á sæti í nefndinni.

Hann segir að væntanlega verði um að ræða þrjú álit úr nefndinni vegna málsins. Álit meirihlutans og síðan álit fulltrúa sjálfstæðismanna annars vegar og framsóknarmanna hins vegar.

Atvinnuveganefnd Alþingis fundaði einnig í morgun um málið og skilaði síðan umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar og var málið afgreitt þar með sama hætti. Ekki liggur fyrir hvenær málið verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert