Segir VG „ósjálfbært rekald“

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. mbl.is

„Viðsnúningurinn frá þeirri stöðu sem byggð hafði verið upp fyrir alþingiskosningarnar 2007 og 2009 er hvað innviði snertir hörmulegur. Flokksforystan taldi sér trú um að með þátttöku í ríkisstjórn væri hún komin í skipsrúm til langs tíma. Hún hætti að rækta garðinn og trúnað við umbjóðendur sína, fólkið sem borið hafði hana til valda.“

Þetta segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, í grein á vefritinu Smugunni þar sem hann fjallar um stöðu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og skýtur föstum skotum á núverandi þingmenn flokksins og aðra sem sækjast eftir því að skipa framboðslista hans í Reykjavík fyrir næstu kosningar.

Tilefni skrifanna er kynningarbæklingur sem honum barst vegna forvals VG í Reykjavík en hann segir engan af frambjóðendunum hafa minnst á Evrópumálin í umfjöllun um áherslur sínar utan einn sem hafi ekki gert upp við sig hvort kostir aðildar að Evrópusambandinu vegi þyngra en gallarnir.

„Þögnin um þetta stærsta sjálfstæðismál Íslendinga hjá frambjóðendum flokks, sem haft hefur andstöðu við ESB-aðild sem stefnumál frá byrjun, er afhjúpandi og dapurleg staðreynd,“ segir Hjörleifur. Nú séu þeir sömu þingmenn í framboði sem samþykkt hafi að sækja um aðild að ESB árið 2009.

„Öðru hvoru hafa þessir sömu þingmenn gefið til kynna að þeir væru ekki alveg gengnir í björg og að leiða þyrfti aðildarferlið til lykta á þessum vetri – fyrir kosningar. Á ekkert slíkt er minnst nú, þegar viðkomandi leita eftir stuðningi félaga sinna,“ segir hann ennfremur og rifjar upp að VG hafi upphaflega verið stofnuð ekki síst utan um andstöðu við aðild að ESB.

„Nú þegar andstaðan við aðild að ESB er orðin slíkt aukaatriði að frambjóðendur VG nefna hana ekki á nafn þegar þeir gera grein fyrir sér, er fokið í flest skjól. Flokkurinn sem við stofnuðum um aldamótin er því miður að verða ósjálfbært rekald við hliðina á Samfylkingunni,“ segir Hjörleifur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka