Stjórnmálasamband rætt í ríkisstjórn

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Engin ákvörðun verður tekin um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs á milli Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis eða óskar frá henni þess efnis. Þetta kom fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Ragnheiður spurði ráðherrann út í þau ummæli Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, að skoða þyrfti þann möguleika. Össur sagði að hann myndi taka málið upp á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun en vildi ekki gefa upp afstöðu sína til þess hvort slíta ætti stjórnmálasambandinu og sagðist ekki telja að þingmenn ættu að taka pólitíska glímu um málið.

Ragnheiður vakti athygli á því að Ísland væri meðal annars í stjórnmálasambandi við ríki eins og Íran, Sýrland og Norður-Kóreu og hvatti til þess að ekki yrði tekin ákvörðun í þessum efnum nema að vandlega athuguðu máli.

Þá spurði Ragnheiður ennfremur að því hvað Össuri þætti um það að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefði hvatt fólk til þess að mótmæla Ísrael fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna og það á sama tíma og lögreglan væri fjársvelt.

Össur gerði ekki athugasemd við þau ummæli Ögmundar og sagðist telja eðlilegt að hann tjáði skoðanir sínar á málinu eins og aðrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert