„Við höfum margoft tekið málefni löggæslunnar til umfjöllunar og gerum það núna og höfum gert það í tengslum við fjárlögin. Það er alveg sjálfsagt að taka sérstaka umræðu um stöðu löggæslunnar í landinu og ég skorast alls ekki undan því ef slíkar óskir berast,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á Alþingi í dag.
Ráðherrann var þar að svara fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem vitnaði í skýrslu sem innanríkisráðuneytið hefur látið vinna en þar kemur meðal annars fram að aðbúnaður lögreglunnar sé óviðunandi og geta hennar til þess að bregðast við sömuleiðis. Hvatti hann til þess að staða lögreglunnar væri rædd í opinni umræðu á Alþingi og að innanríkisráðherra gæfi þinginu skýrslu um hana.
„Það er orðið mjög alvarlegt þegar segir í skýrslu innanríkisráðuneytisins að viðbúnaðargetan sé óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð vegna öryggis ríkisins. Við erum að tala hér um algera grundvallarstarfsemi í öryggi borgaranna. Og við erum líka að tala um það fólk sem starfar í þessari grein,“ sagði Jón og rifjaði ennfremur upp umræðu á dögunum um það hversu alvarlegt ástand væri að skapast varðandi starfsöryggi lögreglumanna.
„Ef heldur fram sem horfir þá verður það þannig að fólk fæst ekki til starfa einfaldlega á þessum vettvangi,“ sagði hann ennfremur.