Vill lækka kosningaaldur í 16 ár

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson.

Árni Þór Sigurðsson alþingismaður hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að kosningarréttur við kosningar til Alþingis verði lækkaður úr 18 árum í 16 ár.

Hlynur Hallsson varaþingmaður flutti þingsályktunartillögu sama efnis árið 2007. Í greinargerð með frumvarpinu segir að kosningaaldur hafi verið lækkaður niður í 16 ár í Brasilíu, Níkaragva og Kúbu. Í nokkrum ríkjum á Balkanskaga, þ.e. Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, hafi ungmenni á vinnumarkaði sem eru orðin 16 ára einnig kosningarrétt. Þá hafi Austurríki stigið þetta skref árið 2007 þegar kosið er til Evrópuþings. Einnig hafi kosningaaldur verið lækkaður til héraðs- eða sveitarstjórna í nokkrum fylkjum í Þýskalandi og víðar.

„Flutningsmaður þessa frumvarps er þeirrar skoðunar að sú stjórnmálavitund sem mikilvægt er að ungmenni öðlist muni ekki aukast að ráði nema þau fái aukin áhrif á samfélagið og beri aukna ábyrgð á því. Markmið þessa frumvarps er því annars vegar að koma til móts við siðferðislegan rétt ungmenna til þess að láta að sér kveða í landsmálum, hins vegar að auka áhuga þeirra á stjórnmálum og vekja þau til aukinnar vitundar um mikilvægi lýðræðisins,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert