Ákærum vísað frá að hluta

Ákæru á hendur Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg í Al-Thani-málinu svo nefnda var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Jafnframt var hluta ákærunnar á hendur Ólafi Ólafssyni, eiganda Samskipa, vísað frá. Embætti sérstaks saksóknara hefur kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar.

Samkvæmt upplýsingum frá Birni Þorvaldssyni, saksóknara hjá embætti sérstaks saksóknara, var ákærunni á hendur Magnúsi vísað frá á þeirri forsendu að í ákærunni væri ekki nægjanlega lýst aðkomu Magnúsar að málinu. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum.

Ákæru um hlutdeild í markaðsmisnotkun vísað frá

Ólafur er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum og hlutdeild í markaðsmisnotkun. Var síðarnefnda ákæruliðnum vísað frá í morgun af héraðsdómi en sá úrskurður var jafnframt kærður til Hæstaréttar.

Ekki er vitað hversu langan tíma Hæstiréttur tekur sér til þess að komast að niðurstöðu en líklegt er að það taki að minnsta kosti tvær vikur.

Verjendur sakborninga í Al-Thani-málinu  fóru fram á það við málflutning fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. nóvember sl. að málatilbúnaði ákæruvaldsins yrði vísað frá dómi. Dómari féllst ekki á að vísa frá ákærum á hendur Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings né Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings.

Ákærður fyrir að veita eignalausu félagi 50 milljón Bandaríkjadala lán

Hreiðar Már er meðal annars ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem forstjóri bankans, þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita eignalausu félagi, í eigu Al Thani sjeiks í Katar, á Tortola 50 milljóna Bandaríkjadala lán án þess að lánið væri tryggt og án samþykkis lánanefndar bankans. Var lánið veitt hinn 19. september 2008 og lánsfjárhæðin lögð inn á reikning Al Thanis hjá Kaupþingi í Lúxemborg, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar.

Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í þessu máli með því að hafa tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra.

Lánið var á gjalddaga hinn 30. september 2008 en var þá framlengt til 14. október 2008 og síðan til 18. nóvember sama ár. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana Kaupþingi banka að fullu glataða.

Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað stöðu sína þegar þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita Gerland Assets, eignalausu félagi á Tortola, í eigu Ólafs Ólafssonar, sem átti 9,88% hlut í bankanum í gegnum félög sín, tæplega 12,9 milljarða króna lán í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar bankans (sem Sigurður stýrði) og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Lánið var veitt 29. september 2008, nokkrum dögum fyrir fall Kaupþings, og var það lagt inn á reikning Gerland í Kaupþingi. Sama dag var það millifært á aðra reikninga og endaði á vörslureikning í eigu Q Iceland Finance í bankanum.

Fjárhæðinni var varið til kaupa á hlutafé í Kaupþingi. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana að fullu glataða, samkvæmt ákærunni á hendur fjórmenningunum.

Þeir Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Katar, sjeik Al Thani, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlut í Kaupþingi þegar Q Iceland Holding keypti umræddan hlut í bankanum og leyna fullri fjármögnun bankans á hlutafjárkaupum og aðkomu meðákærða Ólafs að þeim.

Segir að engin lög hafi verið brotin við sölu á hlutabréfum

Í greinargerð sem Hreiðar Már lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í október kemur fram að sala á hlutabréfum í eigu Kaupþings til félags í eigu Mohammeds bin Khalifa Al Thani í september 2008 voru Kaupþingi á allan hátt hagfelld og með viðskiptunum voru engin lög brotin.

Ekki kom fram þegar viðskiptin voru tilkynnt hvernig þau voru fjármögnuð, en því er haldið fram í greinargerðum verjanda í málinu, að engin skylda hafi verið að upplýsa um það. Raunar kemur fram í greinargerð Hreiðars Más að það hafi ekki verið heimilt.

Vísar því á bug að Ólafur hafi verið óbeinn eigandi bréfanna

Hreiðar Már gagnrýnir í greinargerð sinni málatilbúnað saksóknara harðlega. Hann segir að um raunveruleg viðskipti hafi verið að ræða. Við viðskiptin hafi eignarhald og markaðsáhætta af hlutabréfunum færst frá Kaupþingi til félags í eigu Al Thani. Bankinn hafi um leið eignast kröfu sem bar vexti og notið óbeinnar tryggingar í hlutabréfunum. Að auki hafi fengist trygging frá Al Thani fyrir 50% kaupverðsins eða um 12,8 milljörðum. „Kaupþing var því án nokkurs vafa mun betur sett eftir viðskiptin,“ segir í greinargerð verjanda Hreiðars Más.

Hreiðar Már vísar því alfarið á bug að Ólafur Ólafsson hafi verið einhvers konar óbeinn eigandi hlutabréfanna, eins og saksóknari heldur fram í ákærunni, líkt og fram kom í frétt á mbl.is í október.

Ákæran í heild

Magnús Guðmundsson
Magnús Guðmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í héraðsdómi
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í héraðsdómi mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert