Deilt um það hvort vandað var til verks

mbl.is/Hjörtur

Fyrsta umræða um frumvarp að nýrri stjórnarskrá hófst á Alþingi í dag og mælti formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, Valgerður Bjarnadóttir, fyrir frumvarpinu við upphaf umræðunnar. Gerði hún grein fyrir efni fumvarpsins og forsögu þess og lagði áherslu á að sú vinna sem stæði að baki frumvarpinu væri bæði mikil og mjög vönduð. Stefnt væri að því að afgreiða málið á yfirstandandi þingi og samþykkja það áður en því lyki fyrir þingkosningarnar í vor.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í umræðunni lagt áherslu á mikilvægi þess að fara betur yfir frumvarpið og að mörgum spurningum væri enn ósvarað vegna málsins. Fjölmargar athugasemdir hefðu komið fram vegna þess, meðal annars frá sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar, sem ekki hefði verið tekið tillit til og kölluðu þeir eftir því að það væri gert og þar með talið leitað til erlendra sérfræðinga.

Þegar verið rætt við fjölmarga sérfræðinga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Valgerði að því hvers vegna umboð lögfræðinganefndar sem falið var að fara yfir frumvarpið frá lagatæknilegu sjónhorni hefði verið skilgreint svo þröngt. Spurði hann ennfremur að því hvers vegna ekki hefði verið leitað til erlendra sérfræðinga varðandi heildarmat á frumvarpinu líkt og lögfræðinganefndin hefði kallað eftir.

Valgerður svaraði því til að málið væri nú komið til efnislegrar umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og að sjálfsögðu yrði í því ferli kallaðir til allir þeir sérfræðingar sem hægt væri að ná í. Hún svaraði hins vegar ekki spurningunni um þröngt umboð lögfræðinganefndarinnar. Sigmundur spurði þá aftur hvers vegna ekki hefði verið leitað fyrst til slíkra sérfræðinga áður en málið kom inn á Alþingi. Svaraði hún því til að í undirbúningi málsins hefði verið leitað til fjölmargra sérfræðinga.

Skilaboð um það hvernig umræðan verði

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór meðal annars hörðum orðum um það hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu brugðist við athugasemdum við frumvarpið sem komið hefðu frá sérfræðingum um málið. Aðstoðarmaður forsætisráðherra hefði þannig kallað málþing í haust með þátttöku slíkra sérfræðinga steypu. Valgerður hefði sagt sérfræðingana í fílabeinsturni og þyrftu að vanda sig betur. Þeim væri sendur tónninn og þannig send skilaboð um það hvernig umræðan yrði um málið í vetur.

Samtals hafa átta þingmenn nú tekið til máls í umræðunni en 16 þingmenn eru að auki á mælendaskrá og því ljóst að hún mun líklega standa fram á kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert