Forgangsakstur lögreglu, sjúkra- og slökkviliðs í umferðinni er vandasamur og bráðhættulegur. Að mati flestra sem hann þekkja ættu að vera reglur um hverjir mega stunda forgangsakstur. Eftir mörg alvarleg slys lögreglubíla í umferðinni árin 2004-2006 var ákveðið að gera átak í þjálfun lögreglu í forgangsakstri.
Fram til 2001 fengu lögreglumenn lágmarksþjálfun í forgangsakstri, sem fór þó ekki fram í umferðinni heldur á flugbraut. Það var slegið af m.a. vegna kostnaðar. Um nokkurra ára skeið, áður en slysaaldan reið yfir 2004-2006, fól lögreglunám því ekki í sér neina þjálfun í forgangsakstri.
Eitt slys var dýrara en að halda úti þjálfun
Eiríkur Hreinn Helgason yfirlögregluþjónn fjallaði um þjálfun lögreglumanna í forgangsakstri á Umferðarþingi 2012. Það sem gerði útslagið og réð því að átak var gert var slys sem varð þegar lögreglubíll fór í bráðaútkall skömmu fyrir miðnætti árið 2007. Lögreglubíllinn fór yfir á rauðu ljósi, lenti í árekstri við fólksbíl og endaði á ljósastaur. Staurinn gekk langt inn í bílinn og munaði hársbreidd að lögreglumaðurinn sem sat undir stýri yrði fyrir honum.
„Við sem höfðum áhuga á að koma þessum málum til betri vegar könnuðum hvað þetta slys hefði kostað og komumst að því að það voru 25 milljónir settar í bótaábyrgðasjóð vegna þessa eina slyss,“ sagði Eiríkur. Því næst var áætlað hvað myndi kosta að þjálfa meirihluta þeirra lögreglumanna sem stunda forgangsakstur, og var niðurstaðan að það myndi kosta 30 milljónir. Dæmið reyndist auðreiknað og námskeiðin voru sett á laggirnar.
7-8 sinnum hættulegra en venjulegur akstur
Forgangsakstur er hættulegur að sögn Eiríks, m.a. vegna þess að normum umferðarinnar er ekki fylgt en einnig vegna þess að umferðarmannvirki eru ekki hönnuð með forgangsakstur í huga. Þjálfun í forgangsakstri og kynningu á því hvernig vegfarendur eiga að bregðast við hefur verið ábótavant og sagði Eiríkur meðvitund um áhættuna skorta í samfélaginu.
„Við vitum öll að það er hættulegt að vera í umferðinni, og erlendar rannsóknir sýna að forgangsakstur er 7-8 sinnum hættulegri en venjulegur akstur.“ Á Íslandi hefur þetta þó lítið verið rannsakað og segir Eiríkur skráningu ábótavant. „Við vitum einfaldlega ekki hve mikið er ekið í forgangi hér en það er ekki ástæða til að ætla að þetta sé minna hættulegt hér á landi en annars staðar.“
425 lokið námskeiði með góðum árangri
Hluti af átakinu sem ráðist var í var að fá Rannsóknarnefnd umferðarslysa til að skoða slys sem orðið hafa í forgangsakstri lögreglu. Í ljós kom að rauði þráðurinn í svona slysum er gatnamót og mistök ökumanna. Lögregluskólinn gerði samning við Politihøgskolen í Noregi um að þjálfa 15 leiðbeinendur sem aftur þjálfa lögreglumenn hér. Nú hafa alls 425 lögreglumenn lokið námskeiði í forgangsakstri á undanförnum 4 árum.
Eiríkur segir að kostnaðurinn hlaupi vissulega á tugum milljónum króna, þótt reynt sé að halda honum í lágmarki, en árangurinn er sá að slysum hefur fækkað umtalsvert og viðhorfið til forgangsaksturs breyst, m.a. með aukinni meðvitund um áhættuna. Búið er að taka ákvörðun um að þessi námskeið verði reglulega á dagskrá lögregluskólans og er að því stefnt að hertar verði reglur um hverjir megi stunda forgangsakstur, þannig að ákveðin starfsréttindi þurfi til og símenntun þurfi til að viðhalda þeim réttindum.
Hér að neðan má sjá stutta fræðslumynd Umferðarstofu um þau atriði sem vegfarendur þurfa að hafa í huga svo þeir tryggi sem best forgang og öryggi lögreglu- og sjúkraliðs í forgangsakstri: