Geti talað máli Palestínumanna

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þolinmæðin er á þrotum,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, þegar hann hóf sérstaka umræðu í þinginu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Fór hann hörðum orðum um árásir Ísraela á Gaza-ströndina og sagði að Ísland ætti að hafa forystu um að fordæma þær á alþjóðavettvangi og taka upp málstað Palestínumanna. Endurskoða þyrfti ennfremur stjórnmálasamband Íslands við Ísrael. Þá þyrfti að þrýsta á bæði Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkjamenn að beita sér í málinu.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var til andsvara og sagði að íslensk stjórnvöld hefðu talað máli Palestínumanna við öll þau tækifæri sem hefðu gefist. Hann sagði ennfremur að það hlyti að koma til skoðunar að endurskoða stjórnmálasambandið við Ísrael.

Hins vegar benti utanríkisráðherra á að forystumenn arabaríkja sem hann hefði rætt við hefðu ekki talað fyrir því að stjórnmálasambandi yrði slitið við Ísrael heldur að Íslendingar gætu einmitt talað máli þeirra gagnvart Ísraelum.

Þá lagði Össur áherslu á að ákvörðun um endurskoðun á stjórnmálasambandi við Ísrael yrði tekin í samvinnu við önnur ríki og þá ekki síst hin Norðurlöndin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert