Leggja mikla áherslu á jöfn tækifæri

Merki CCP.
Merki CCP.

CCP er með öfluga jafnréttisstefnu sem meðal annars felst í því að fjölga konum innan fyrirtækisins. Lögð er mikil áhersla á jöfn tækifæri á sem flestum sviðum og þegar tveir jafnhæfir einstaklingar koma til greina er sá starfsmaður valinn sem er af því kyni sem er í minnihluta.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Hönnu Guðlaugsdóttur, mannauðsstjóra CCP á Íslandi. Hanna hélt fyrirlestur á fundi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á Grand hóteli í morgun.

„Jafnréttisstefna felst í því að ráða hæfasta fólkið í hvert starf,“ sagði Hanna. „Þegar tveir jafnhæfir einstaklingar koma til greina veljum við þann starfsmann sem er af því kyni sem er í minnihluta,“ sagði Hanna.

Hún sagði að fyrirtækið notaði ímyndarauglýsingar á markvissan hátt til að fjölga konum í störfum innan fyrirtækisins og sagði mikla áherslu lagða á jöfn tækifæri á sem flestum sviðum.

Hún sagði kynbundinn mun á kjörum vera skoðaðan árlega og kæmi slíkur munur í ljós væri hann leiðrættur. Þá væru launaviðtöl á hverju ári.

Að sögn Hönnu er starfsfólki CCP gefinn kostur á sveigjanlegum vinnutíma eins og kostur gefst á. Stundum sé miðað við svokallaðar kjarnastundir, þar sem fólk vinni tiltekinn hluta vinnutímans á vinnustaðnum.“

Fundurinn var haldinn á vegum vinnuhóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Hópurinn var skipaður af velferðarráðuneytinu í samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu.

Hanna Guðlaugsdóttir, starfsmannastjóri CCP á Íslandi.
Hanna Guðlaugsdóttir, starfsmannastjóri CCP á Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert