Lögð af stað í leiðangur lífsins

Vilborg við skriftir í í tjaldi. Hún er nú komin …
Vilborg við skriftir í í tjaldi. Hún er nú komin á pólinn og lögð af stað í gönguna.

Vilborg Arna Gissurardóttir hóf í gær göngu sína á suðurpólinn en áætlað er að ferð hennar á syðsta punkt jarðar taki um 50 daga. Vilborg Arna fer þessa göngu í þágu Lífs, styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. 

Vilborg hefur síðustu daga dvalið í tjaldbúðum ALE (antarctic logistics and expeditions) í Union Glacier en þaðan fara flestir leiðangrar á suðurpólinn. Frá Union Glacier var flogið með Vilborgu til Hercules Inlet, þar sem hún hóf gönguna. Vilborg var brött í lok fyrsta göngudags en hún bloggar um upphaf göngunnar á heimasíðu sinni.

„Sólóleikar suðurskautsins hófust í dag,“ skrifar Vilborg. „Mér var flogið á upphafsstað í morgun og ég var klár kl. hálf eitt að byrja gönguna. Þurfti að ganga yfir nokkrar snjópakkaðar sprungur og gekk fram á eina vígalega en „lambi“ var ekki lengi að koma mér í öruggari aðstæður. Flaug á hausinn í dag. Frekar vandræðalegt ... held samt að enginn hafi séð það. Nú er kósístund í tjaldinu en það gustar aðeins úti. Gekk 6,3 km í dag í góðu veðri. Dágóð brekka var í dag ... góður dagur.“

Vilborg nýtur stuðnings við leiðangurinn frá ALE og verður hún í  sambandi við tjaldbúðirnar a.m.k. einu sinni á sólarhring meðan á ferð hennar um suðurpólinn stendur.

Tekur um 50 daga

Áætlað er að ferð Vilborgar frá Hercues Inlet á syðsta punkt jarðar taki um 50 daga og að á hverjum degi gangi hún um 22 km að meðaltali. Hún mun draga á eftir sér tvo sleða með nauðsynlegum búnaði til fararinnar sem vegur í byrjun um 100 kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert