Nokkuð hefur verið um forföll á mannamótum á Ísafirði og í nágrenni undanfarna daga sökum veikinda hjá fólki. Læknir á heilsugæslustöðinni á Ísafirði kannast ekki við að neinn inflúensufaraldur sé í gangi um þessar mundir enda herji inflúensa yfirleitt ekki á landsmenn fyrr en upp úr áramótum.
Hann segir hins vegar í samtali við Bæjarins besta að Nóró-veiran, sem margir veiktust af fyrir nokkrum vikum, sé enn í gangi. Sá faraldur var svo skæður að loka þurfti deildum og gera ýmsar aðrar ráðstafanir víða á heilbrigðisstofnunum til að hafa hemil á smithættu. Veiran veldur niðurgangi og uppköstum og stundum fylgir hiti veikindunum.
Læknirinn kallar þetta „annan umgang“ veirunnar og segist verða var við að fólk sé enn að veikjast.