Strandaði í Breiðafirði

Fjölveiðiskipið Þórsnes II tók niðri á grynningu í Norðurflóa innarlega …
Fjölveiðiskipið Þórsnes II tók niðri á grynningu í Norðurflóa innarlega í Breiðafirði um 7 sjómílum suð-vestur af Reykhólum mbl.is/Alfons

Fjölveiðiskipið Þórsnes II tók niðri á grynningu í Norðurflóa innarlega í Breiðafirði um sjö sjómílur suðvestur af Reykhólum upp úr kl. sex í morgun. Skipverjar höfðu samband við Landhelgisgæsluna og upplýstu um aðstæður. 

Veður var þokkalegt á staðnum og enginn leki virtist vera kominn að skipinu.  Landhelgisgæslan kallaði út og setti harðbotna björgunarbáta Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Stykkishólmi og Grundarfirði ásamt björgunarskipi á Rifi og björgunarsveit á Reykhólum í viðbragðsstöðu. 

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út og sett í viðbragðsstöðu á flugvelli í Reykjavík. Grettir, skip Þörungavinnslunnar á Reykhólum, bjó sig einnig til að fara að Þórsnesi II og vera til taks þegar félli meira að og von um að skipið losnaði af grynningunum. Um kl. 07:44 tilkynnti skipstjóri Þórsness II að skipið hefði losnað af sjálfsdáðum af strandstað þegar flæddi að en háflóð verður um kl. 11:00 í dag. Skrokkur og skrúfubúnaður skipsins virtist í lagi og heldur skipið undir eigin vélarafli til Stykkishólms til frekari skoðunar. Þórsnes II er 233 brúttótonn að stærð, 32 metra langt og í áhöfn eru níu manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert