Vill ekki áfangaskipta vinnunni

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýsti andstöðu við það að áfangaskipta breytingum á stjórnarskrá. Hún sagði í umræðum um tillögur stjórnlagaráðs að Alþingi hefði nú fjóra mánuði til að ljúka vinnunni, en það væri sami tími og stjórnlagaráð hefði fengið.

Jóhanna lýsti vonbrigðum með ummæli sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lét falla fyrr í dag um að óraunhæft væri að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir næstu þingkosningar. Hún sagðist telja þetta ótímabæra yfirlýsingu.

Jóhanna hvatti alþingismenn til að fara vel yfir málið og nýta tímann vel. Hún sagði að vinnu sérfræðinganefndar um lagatæknileg atriði væri ekki lokið. Jafnframt væri von á tillögum Feneyjarnefndarinnar í lok janúar.

„Það er nauðsynlegt að hlusta vel á alla efnislega gagnrýni og röksemdir sem fram verða settar og skoða hvort hægt verði að bregðast við henni þannig að sem breiðust sátt geti náðst um málið. Þessi breiða sátt má þó aldrei verða til þess að mikilvægum atriðum í þessum stjórnarskrártillögum verði kastað fyrir róða. Það hefur verið lögð mjög mikil vinna í þetta mál af hálfu stjórnlagaráðs og á þjóðfundi og margir komið að þessu máli. Ég tel að okkur beri skylda til þess að virða þær tillögur sem fram hafa komið og það þurfi að vera sterk rök fyrir því að gera mikilvægar efnisbreytingar á frumvarpinu. Við eigum þó aldrei að útiloka það,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna sagðist vilja vara við tvennum öfgum í þessu máli. Annars vegar að stilla Alþingi upp við vegg og taka af þinginu réttinn til að fara á gagnrýninn hátt yfir málið og hins vegar að leggja stein í götu þess að verkefnið heppnist. „Sumir tala um að áfangaskipta þurfi verkinu en þá er sú hætta að heildarsamræmi í tillögunum tapist og einnig að þjóðinni finnist hún svikin um það loforð að fá nýja stjórnarskrá.“

Fyrstu umræðu um tillögur stjórnlagaráðs héldu áfram á Alþingi í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka