Allt að 50 m/s í Öræfasveit

Á Suðausturlandi er óveður í Öræfum og við Lómagnúp og …
Á Suðausturlandi er óveður í Öræfum og við Lómagnúp og mikið sandfok og þar er ekkert ferðarveður. mbl.is/RAX

Mjög hvasst er víða á Suðausturlandi og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fer vindhraðinn í allt að 50 metra á sekúndu í hviðum í Öræfasveit. Gert er ráð fyrir að það lægi um miðjan dag en þangað til er ekkert ferðaveður á þessum slóðum.

Við Lómagnúp verða vindhviður 30-40 m/s þar til síðdegis. Gera má ráð fyrir að sandfok verði á Skeiðarársandi meira og minna í allan dag eða þar til fer að rigna á þeim slóðum. Hálkublettir eru á Mýrdalssandi en hálka á Reynisfjalli og suður úr. Austanlands kemur úrkomusvæði úr austri. Fram eftir morgni verður snjókoma og skafrenningur suður í Breiðdal og lítið skyggni en hlánar þegar kemur fram á daginn með rigningu á láglendi austan- og norðaustanlands.

Hálkublettir eru á  höfuðborgarsvæðinu, á Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir eða hálka er víða á Suðurlandi. Á höfuðborgarsvæðinu fór að snjóa á níunda tímanum.

Hálka og skafrenningur er frá Hellu og að Markarfljóti. Hálkublettir eru á Suðurstrandarvegi.

Óveður er undir Hafnarfjalli og við Hafursfell. Hálkublettir eru á Bröttubrekku. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Skafrenningur er í Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og hálka og óveður á Þröskuldum. Hálkublettir og óveður er á Hjallahálsi, snjóþekja og stórhríð á Klettshálsi.  Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði og í Súgandafirði og verið að hreinsa. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum öðrum leiðum.

Á Norðurlandi er þæfingsfærð  og skafrenningur á Þverárfjalli, í Héðinsfirði, Víkurskarði og á Fljótsheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er frá Ketilási að Siglufirði og snjóþekja og stórhríð frá Hofsósi að Ketilási. Hálka og skafrenningur er í Húnavatnssýslum og á Vatnsskarði. Snjóþekja eða hálka og snjókoma og éljagangur er á flestum öðrum leiðum og verið að hreinsa.

Á Norðaustur- og Austurlandi er þæfingsfærð á flestum leiðum í kringum Egilsstaði og verið að hreinsa, einnig er þæfingsfærð á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði og á Oddsskarði. Snjóþekja og snjókoma er á flestum leiðum frá Reyðarfirði með ströndinni að Höfn en þaðan og að Kvískerjum eru hálkublettir og éljagangur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert