Almenn ánægja með slökkviliðið

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Um 97 prósent svarenda í nýrri rannsókn Capacent Gallup segjast bera mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Rannsóknin sýnir einnig að 96,5 prósent telja að eldvarnaátak slökkviliðsmanna fyrir jólin sé mikilvægt, samkvæmt tilkynningu frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Capacent gerði könnunina í október síðastliðnum fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutninsmanna (LSS) og Eldvarnabandalagið. Úrtakið var 1.450 manns af öllu landinu og var svarhlutfallið 58,8 prósent.

Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS, segir í fréttatilkynningu afar mikilvægt fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn að njóta trausts almennings.

„Okkar menn koma fólki til aðstoðar á erfiðum stundum í lífinu, vegna eldsvoða, slysa og alvarlegra veikinda. Það er ákaflega mikilvægt að gagnkvæmt traust sé fyrir hendi við slíkar aðstæður. Því eru þessar niðurstöður mikið gleðiefni fyrir okkur,“ segir Valdimar í tilkynningu.

Eldvarnaátakið hefst fimmtudaginn 22. nóvember og stendur til mánaðamóta. Slökkviliðsmenn heimsækja þá börn í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir.

„Við teljum það afar mikilvægan þátt í okkar starfsemi að fræða almenning um eldvarnir og reyna þannig að fyrirbyggja eldsvoða og mann- og eignatjón vegna þeirra. Þessi niðurstaða styrkir okkur í þessu starfi,“ segir Valdimar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert