Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að ef Landsvirkjun ákveði að ráðast í miklar framkvæmdir á næstu árum sé skynsamlegra að fjármagna þær með eiginfjárframlagi frekar en með ríkisábyrgð.
Hörður var á haustfundi Landsvirkjunar í dag spurður hvort hann vildi að lífeyrissjóðirnir gerðust eignaraðilar að Landsvirkjun. Hann sagði að þetta væri hápólitísk spurning og það væri ákvörðun eigenda fyrirtækisins hvort breytingar yrðu gerðar á eignarhaldinu. „Eigandi Landsvirkjunar hefur ákveðið á undanförnum árum að styðja mjög mikið við Landsvirkjun með ríkisábyrgð. Það er mjög óvarleg leið til að fjármagna fyrirtækið. Með því er tekin mikil áhætta.“
Hörður sagði að Landsvirkjun væri í dag skuldsett félag. Það væri að borga niður skuldir nokkuð hratt, en væri ennþá of skuldsett. „Það væri því mjög jákvætt að fá inn eigið fé í fyrirtækið, en það er ekki bráðnauðsynlegt. Ef fyrirtækið myndi ráðast í miklar framkvæmdir held ég að ætti að skoða að gera það frekar með eiginfjárframlagi, en með ríkisábyrgð. Ríkisábyrgð er ekki mjög gegnsæ leið til að fjármagna fyrirtækið. Hún er hins vegar að sjálfsögðu fær.“
Landsvirkjun skuldaði 373 milljarða um síðustu áramót en skuldaði 446 milljarða í árlok 2007.