Jón Bjarnason alþingismaður segir að það hafi komið skýrt fram á fundi sem sjö alþingismenn áttu með Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í dag að Ísland ætti ekki kost á varanlegum undanþágum frá lögum sambandsins.
Fundur sameiginlegar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið hófst í dag í húsnæði Evrópuþingsins í Strassburg en fundinum lýkur á morgun.
Fyrir hönd Íslands sitja fundinn Skúli Helgason og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Ragnheiður E. Árnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Jón sagði að á fundinum hefði Füle verið spurður hvort Ísland ætti kost á því að fá varanlegar undanþágur í aðildarviðræðunum við ESB. Svar hans hefði verið alveg skýrt um að Ísland gæti ekki fengið varanlegar undanþágur frá lögum Evrópusambandsins. Ísland væri að sækja um aðild að sambandinu og yrði að fella sig undir lög þess.
Jón sagði að eina dæmið um að land sem sótt hefði um aðild hefði fengið varanlega undanþágu frá lögum ESB væri Malta sem fékk undanþágu varðandi tvöfaldan búseturétt.
Jón sagði að Füle hefði sagt að lönd sem sótt hefðu um aðild að ESB hefðu hins vegar fengið tímabundnar undanþágur. Undanþágur sem ESB veitir væru alltaf veittar á þeim grunni að ESB gæti tekið ákvörðun um að breyta þeim.
Jón sagði að á fundinum hefði verið spurt hvort Ísland gæti fengið undanþágur frá reglum um innflutning á lifandi dýrum, hráu kjöti og til að stýra landbúnaðarstefnu sinni. Füle hefði ítrekað að ekki væri um varanlegar undanþágur að ræða frá lögum ESB.
Jón sagði að Füle hefði hvatt Íslendinga til að setja fram kröfur sínar í landbúnaðarmálum. ESB myndi svara þeim.
Ísland hefur ekki formlega sett fram samningsafstöðu sína í landbúnaðarmálum, en Jón sagði að um hana væru harðar deilur hér heima. Bændasamtökin hefðu lagt áherslu á að Ísland færi fram á að fá varanlegar undanþágur varðandi innflutning á lifandi dýrum og hráu kjöti. Jón sagði hins vegar ljóst að slíkar undanþágur væru ekki í boði af hálfu ESB.