Íslandsbanki hefur ákveðið að falla frá þremur dómsmálum sem fyrirhugað var að höfða vegna gengislána. Í framhaldinu ætlar bankinn að endurreikna 14.000 lán viðskiptavina bankans.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld. Fyrr á þessu ári var rætt um að fara þyrfti í 11 dómsmál til að fá úr því skorið hvernig ætti að reikna gengislán sem dæmd hafa verið ólögmæt. Íslandsbanki átti fjögur þessara mála. Birna sagði í samtali við RÚV að bankinn hefði tekið ákvörðun að fella niður þrjú þessara mála þar sem stjórnendur bankans teldu að Hæstiréttur væri búinn að gefa nægilega skýrt fordæmi um hvernig ætti að reikna lánin.
Fyrir tæpum mánuði lýsti Íslandsbanki því yfir að hafinn væri endurreikningur á 6.000 ólöglegum bílalánum. Birna sagði að ákvörðun bankans um að hætta að fara í þessi dómsmál þýddi að farið yrði að endurreikna 14.000 lán. Hún sagði að það væri talsverð vinna að endurreikna lánin og því myndi ekki ljúka fyrr en eftir einhverjar vikur eða jafnvel mánuði. Hún sagði hugsanlegt að í einhverjum tilvikum myndi bankinn endurgreiða til viðskiptavina bankans sem hefðu ofgreitt af lánum.