Gagnrýnir ekki starfshætti Dróma

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Styrmir Kári

Fjármálaeftirlitið telur að í öllum meginatriðum séu starfshættir Dróma faglegir og í samræmi við kröfur um góða viðskiptahætti.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dróma. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir athugun Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsnefndar sem skipuð var skv. lögum vegna aðgerða í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, á starfsháttum Dróma hf. Ástæður úttektanna má m.a. rekja til mikillar opinberrar umræðu og staðhæfinga umboðsmanns skuldara um starfshætti félagsins. Niðurstöður beggja eftirlitsaðila voru nánast samhljóða.

Í öllum meginatriðum voru niðurstöðurnar jákvæðar í garð félagsins og staðfesta að starfshættir þess eru faglegir og í samræmi við kröfur um góða viðskiptahætti. Helstu niðurstöður voru þessar:

·         Athugun á ábyrgðarskuldbindingum staðfesti að Drómi hafi unnið í samræmi við reglur og samkomulög um ábyrgðarskuldbindingar. Voru engar athugasemdir gerðar.

·         Varðandi endurútreikninga gengislána kom ekkert fram sem gaf til kynna að túlkun Dróma á því hvaða lán teldust til ólögmætra gengislána væri þrengri en túlkun annarra fjármálafyrirtækja.

  • Engar athugasemdir voru gerðar við framkvæmd Dróma á 110% leiðinni. Jafnframt var það niðurstaðan að verðmöt sem Drómi hefur lagt til grundvallar við vinnslu umsókna gefi raunhæfa mynd af markaðsvirði eigna.

·         Til þess að gæta hagsmuna viðskiptavina við skuldskeytingu gengistryggðra lána mæltist Drómi til þess að kveðið yrði á um það með skýrum hætti að hugsanleg endurgreiðsla vegna endurútreiknings tilheyrði fyrri skuldara, á meðan ekki lá fyrir skýr niðurstaða Hæstaréttar. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd og taldi að félagið hefði átt að láta við það sitja að vekja athygli á þeirri réttaróvissu sem uppi var.

·        Athugun á svartíma leiddi í ljós að í flestum tilvikum voru svör félagsins við erindum viðskiptamanna innan eðlilegra tímamarka, þó finna mætti tilvik sem dregist hafði að svara. Ekki voru gerðar athugasemdir við tímalengd svörunar vegna erinda viðskiptavina.

„Drómi telur það fagnaðarefni að skoðun Fjármálaeftirlitsins sé lokið. Niðurstaðan staðfestir að starfshættir Dróma eru í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins um heilbrigða viðskiptahætti. Erfitt er að verjast opinberum aðdróttunum og rangfærslum aðila gegn fyrirtækjum á fjármálamarkaði sem ekki geta svarað fyrir sig vegna bankaleyndar. Það er því fagnaðarefni að nú liggi fyrir niðurstaða hlutlausra eftirlitsaðila sem hafa fullan aðgang að öllum viðkomandi gögnum og geta metið staðreyndir mála á grundvelli þeirra,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert