Frá og með 1. desember mun verð á kortum og afsláttarfargjöldum hækka. Staðgreiðslufargjald verður óbreytt eða 350 krónur. Hækkunin var samþykkt á stjórnarfundi Strætó bs. 26. október.
Eftir þessa verðbreytingu munu farþegar greiða um 25% af kostnaði hverrar ferðar. Þrátt fyrir hækkunina er framlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu enn mun hærra en algengt er í nágrannalöndunum, segir í tilkynningu.
„Þjónusta Strætó á höfuðborgarsvæðinu var aukin verulega í ágúst síðastliðnum en farþegum hefur fjölgað töluvert. Mest er fjölgunin á annatímum að morgni og síðdegis. Þjónustutíminn er nú lengri en áður og vögnum hefur verið fjölgað í takt við aukningu farþega til að tryggja nægt rými í vögnunum á háannatíma,“ segir í tilkynningunni.
Verðbreytingarnar
Verð á afsláttarspjaldi fullorðinna breytist, í stað þess að 10 ferðir kosti 3.000 krónur, fást nú 9 ferðir á 3.000 krónur. Græna kortið (gildir í 1 mánuð) hækkar úr 7.700 krónum í 9.300 krónur, Rauða kortið (gildir í 3 mánuði) hækkar úr 17.500 krónum í 21.000 krónur og Bláa kortið (gildir í 9 mánuði) hækkar úr 42.500 krónum í 49.900 krónur.
Afsláttarfargjöld unglinga 12 – 18 ára kosta eftir hækkunina 2.500 krónur í stað 2.300 krónur fyrir 20 ferðir. Aldraðir og öryrkjar greiða eftir hækkunina tvö hundruð krónum meira fyrir 20 ferðir eða 2.300 krónur. Börn 6-11 ára greiða einnig tvö hundruð krónum meira fyrir 20 ferðir eða 1.100 krónur eftir hækkunina.
Eins dags kort mun kosta 900 krónur eftir 1. desember en kostaði áður 800 krónur. Þá mun þriggja daga kort kosta 2.200 krónur í stað 2.000 króna.