Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Annþórs Kristjáns Karlssonar, krafðist í morgun þess að dómara úrskurði um hæfi Karls Inga Vilbergssonar, aðstoðarsaksóknara. Dómarar tóku sér hlé til að fara yfir hvort krafan sé úrskurðarhæf á þessu stigi málsins.
Aðalmeðferð yfir þeim Annþóri, Berki Birgissyni og átta öðrum hélt áfram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þeir eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraunir til fjárkúguna.
Guðmundur setti raunar fram kröfu sína við dómþingið í gær en lagði fram formlega kröfu í morgun. Hann segir að Karl Ingi hafi lent í líkamlegum átökum við einn ákærðu 22. júní í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þá var kveðinn upp dómur yfir Berki vegna ótengds máls.
Dómari hafnaði í gær kröfu Guðmundar um að tekinn yrði skýrsla af sakborningnum og Berki vegna þessa. „Verður að lýsa yfir furðu og vonbrigðum yfir að virðulegur dómur hafi synjað verjanda ákærða Annþórs Kristjáns Karlssonar um að taka skýrslu af ákærða [S] og ákærða Berki Birgissyni vegna þessa og verður að telja að með þessari ákvörðun dómsins sé verið að ganga gegn ákvæðum 1. mgr. 6. gr. MSE um réttláta málsmeðferð og er allur réttur áskilinn vegna þess,“ segir í kröfunni.