Rekstrarleiga en ekki lánssamningur

mbl.is

Samningur sem Eirvík-Heimilistæki gerði við Lýsingu varðandi bifreið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag talinn vera samningur um rekstrarleigu á bifreið, eins og heiti samnings bar með sér. Lýsing var því sýknuð af kröfum Eirvíkur í málinu en ágreiningur þeirra laut m.a. að því hvort samningur væri leigusamningur eða lánssamningur, sem félli undir ákvæði laga um vexti og verðtryggingu.

Tildrög máls þessa eru þau að, 19. febrúar 2008, gerðu Eirvík og Lýsing samning með leigutíminn á bifreiðinni sé frá 19. febrúar 2008 til 5. mars 2011 og sé fjöldi greiðslna 36. Þá skuli leigumun skilað í lok leigutíma til seljanda.

Í niðurstöðu dómara kemur fram að Eirvík hafi byggt á ákvæði í samningnum sem kveður á um að leigutaka beri að greiða leigu þó svo að seljandi vanefni samning sinn við stefnda og eða leigutaka, bendi til þess að um lánssamning sé að ræða. Í niðurstöðu dómara kemur fram að ekki verði fallist á að þetta atriði eitt og sér leiði til þess að um lánssamning sé að ræða.

Auk fjölda annarra atriða sem dómari tiltekur í niðurstöðu sinni kemur fram að dómur Hæstaréttar frá 20. október í fyrra sé ekki sambærilegur við það mál sem tekið var fyrir í héraði. Dómurinn hafi því ekki fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.

„Samkvæmt áðursögðu er hvergi að finna höfuðstól í samningnum heldur eingöngu kveðið á um mánaðarlegar leigugreiðslur sem stefnandi þarf að standa skil á. Enn fremur verður af gögnum málsins ráðið að stefnandi hafi greitt stefnda virðisaukaskatt sem bættist ofan á einstakar leigugreiðslur. Þá þykja ákvæði samningsins er lúta að þjónustu til leigutaka og höftum á notkun bifreiðarinnar ekki eiga heima í lánssamningi. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja að samningurinn sé samkvæmt efni sínu leigusamningur,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert