„Skattaglaðir stjórnmálamenn og fræðimenn hefðu haft gott af því að hlusta á fyrirlestur sem dr. Daniel Mitchell hélt síðastliðinn föstudag um neikvæð áhrif stighækkandi tekjuskatts“, segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þeir hefðu þá hugsanlega áttað sig betur á neikvæðu samhengi á milli skattheimtu og efnahagslegra framfara, segir Óli Björn og einhverjir þeirra hefðu jafnvel skilið þær mótsagnir sem fólgnar eru í skattagleðskap ríkisstjórnarinnar.
Í niðurlagi greinar sinnar segir varaþingmaðurinn: „Hvernig staðið er að skattlagningu hefur því bein áhrif á hagvöxt. Flöt, einföld og hófsöm skattlagning hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið og hagvöxtur verður meiri en ella. Fyrir Íslendinga skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Takist ekki að rífa upp hagvöxt hér á landi munu lífskjör taka litlum breytingum á komandi áratugum. Þannig mun það taka 70 ár að tvöfalda landsframleiðsluna ef hagvöxtur er að meðaltali 1% á ári. Takist okkur hins vegar að tryggja 3% vöxt efnahagslífsins mun það taka tæp 25 ár að tvöfalda íslenska hagkerfið og aðeins 18 ár ef hagvöxtur er að meðaltali 4%. Af þessu sést hve miklu það skiptir fyrir almenning að hjól atvinnulífsins fari aftur af stað og hagvöxtur nái að festa sig í sessi. Þar skiptir hvert prósentustig gríðarlega miklu. Þetta er spurning um þróun lífskjara hér á landi“.