Norðurál hefur sent frá sér athugasemd vegna fregna um flúor í grasbítum og starfsemi Norðuráls á Grundartanga.
„Norðurál vísar alfarið á bug dylgjum um að eitthvað sé athugavert við mengunarvarnir álversins á Grundartanga og að flúormagn í grasbítum sé yfir þolmörkum. Í fréttaflutningi hefur verið ruglað saman þolmörkum og viðmiðunarmörkum um líkur á tannskemmdum í norskum dádýrum. Aldrei hafa fundist neinar tannskemmdir sem rekja má til flúors í dýrum í Hvalfirði.
Starfsemi og mengunarvarnir álversins á Grundartanga eru í góðu ástandi og fullkomnustu tækni er beitt til að fylgjast með umhverfisáhrifum þess. Allri losun og umhverfisáhrifum álversins eru sett ströng mörk í starfsleyfi Norðuráls frá Umhverfisstofnun. Losun flúors, sem og annarra efna, er innan settra marka.
Mjög náið er fylgst með umhverfisáhrifum álversins í Hvalfirði og miklar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá upphafi starfsemi. Niðurstöður eru aðgengilegar á vef Norðuráls og þær eru kynntar á opnum fundum með íbúum og hagsmunaaðilum.
Aldrei hafa fundist merki um neikvæð áhrif starfseminnar á heilsu dýra í Hvalfirði, hvorki tannskaði né annað sem bendir til þess að flúor valdi þar skaða. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Umhverfisvaktin og stjórnarmenn hennar fara fram með alvarlegar og meiðandi ásakanir sem eiga ekki við rök að styðjast. Þar má m.a. nefna að fyrrverandi formaður kenndi flúormengun um veikindi hrossa sinna. Þær ásakanir voru rannsakaðar ítarlega. Skýring fannst á þessum veikindum og þau hafa ekkert með áhrif flúors að gera heldur er þar um að kenni umhirðu hrossanna eins og skýrt sést í skýrslu MAST um málið.
Einnig má nefna uppþot Umhverfisvaktarinnar vegna neysluvatns á Akranesi fyrr á þessu ári. Ásakanir Umhverfisvaktarinnar þá reyndust algerlega úr lausu lofti gripnar eins og fram hefur komið. Sýni þau sem Umhverfisvaktin er nú að vísa til eru úr ofangreindum hrossum eftir því sem Norðurál kemst næst, en engin íslensk eftirlitsstofnun eða aðrir hagsmunaaðilar hafa fengið að sjá niðurstöður rannsókna sem Umhverfisvaktin segir að fram hafi farið.
Norðurál hefur átt farsælt samstarf við nágranna sína og mun leggja sig fram um það áfram. Engin ástæða er til að óttast að fyrirtækið víkist undan þeim ströngu kröfum sem því eru settar í starfsleyfi og eru einhverjar þær ströngustu í heimi,“ segir í tilkynningu.