Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Má Ívar Henrýsson í 3 ára fangelsi, ævilanga sviptingu ökuréttinda og til greiðslu skaðabóta, fyrir m.a. mörg brot gegn valdstjórninni, líkamsárás og fíkniefna- og umferðalagabrot.
Ákæran gegn Má er í mörgum liðum, en hann var ákærður fyrir yfirhylmingu fíkniefnabrot, líkamsárás, eignaspjöll, vopnalagabrot og ennfremur var hann ákærður fyrir sex brot gegn valdstjórninni. Hann var m.a. ákærður fyrir að slá til lögreglumanna, hrækja á lögreglumann og hótað lögreglumönnum lífláti.
Maðurinn var fyrst dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 1994 fyrir þjófnað. Árið 2000 var hann dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og árið 2002 í 13 mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Árið 2005 var hann dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Hann var dæmdur í 3 ára fangelsi af Hæstarétti 2009 fyrir brot gegn valdstjórninni, þjófnað, fjársvik, skemmdarverk, nytjastuld, akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fleiri umferðarlagabrot, auk brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var hann með dóminum sviptur ökurétti í 5 ár frá 31. október 2008.
Manninum var veitt reynslulausn úr fangelsi í 2 ár í janúar 2010 á eftirstöðvum refsingar, samtals 540 dögum. Hann rauf skilyrði reynslulausnarinnar. Hann hefur áður verið sakfelldur fyrir mörg brot gegn valdstjórninni með því að hóta lögreglumönnum og fangaverði. Þá hefur hann og verið sakfelldur fyrir alvarlega árás á lögreglumann auk annarra brota.