Niðurstaða nýrrar farþegatalningar hjá Strætó sýnir að á milli áranna 2011 og 2012 hefur farþegum í október fjölgað um 108.013 eða úr 907.159 í 1.015.172 sem er 11,91% fjölgun á milli ára. Það er í fyrsta skiptið í sögu Strætó bs. sem farþegafjöldinn er meiri en 1 milljón farþega í októbermánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
Greiðslugreiningar, sem eru framkvæmdar einu sinni í mánuði, staðfesta að farþegum hefur verið að fjölga töluvert á haustmánuðum í samanburði við árið 2011. Samkvæmt greiðslugreiningunni er aukningin á þessu ári 14,1%.
Ef fram fer sem horfir mun Strætó bs. flytja rúmlega tíu milljónir farþega í ár og verður árið því hið stærsta hjá Strætó frá upphafi.