Tekist á um stóriðju

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Golli

„Hvers konar iðnaður er stefnt í að rísi í nágrenni Húsavíkur?“ spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Hann talaði um „stóriðjustopp“ Samfylkingarinnar og spurði hvort ríkisstjórnin styddi þau verkefni sem kynnt hafa verið varðandi atvinnuuppbyggingu á þessu landsvæði, þar með talið Kísilverksmiðju og hugmyndir Landsvirkjunar.

Forsætisráðherra svaraði því til að ríkisstjórnin styddi öll þau verkefni sem samrýmdust þeim lagareglum sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til að fara eftir og sagði ýmislegt vera á döfinni í þessum efnum.

Bjarni kom aftur i ræðustól og sagði ríkisstjórnina ekki tilbúna að gefa ákveðin svör og ítrekaði að stóriðju fylgdu ýmsar framkvæmdir, þ.m.t. samgöngu- og hafnarbætur. „Ef ríkisstjórnin bregst með fjárhagslegan stuðning, þá verða þessi verkefni ekki að veruleika,“ sagði Bjarni.

Forsætisráðherra kom þá aftur í ræðustól, spurði hvort þörf væri á að endurtaka sig og ítrekaði síðan fyrri svör.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert