Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni, Berki Birgissyni og átta öðrum stendur enn yfir. Málflutningur hefur dregist nokkuð á langinn sem sést einna best á því að vekja þurfti einn verjandann sem sofnaði í sæti sínu.
Á meðan einn verjenda hélt ræðu sína heyrðust hrotur sem svo gott sem yfirgnæfðu ræðuna. Fór þá dómsformaður fram á það að annar lögmaður, verjandi eins sakborninga, sem sofnaði yfir ræðunni yrði vakinn.
Farið var eftir því og hélt málflutningur áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Enn er áætlað að málflutningi ljúki í dag en fjórir verjendur eiga enn eftir að flytja mál sitt auk þess sem öllum gefst kostur á andsvörum. Ennfremur ætla Annþór og Börkur að ávarpa dóminn í lokin.
Sökum þessa má búast við að aðalmeðferðin standi í dag fram á kvöld, nema dómari fresti málinu þar til á morgun.