Vill að fulltrúaráð Eirar verði endurskipað

Magnús L. Sveinsson.
Magnús L. Sveinsson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Magnús L. Sveinsson, stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins Eirar, segir að hann fagni áformum eigenda Eirar um að endurskipa í fulltrúaráð Eirar, enda sé það í samræmi við tillögu sem hann lagði fram á síðasta stjórnarfundi.

Bæði VR og Reykjavíkurborg hafa þrýst á um að breytingar verði gerðar á fulltrúaráði Eirar, en í því sitja 37 menn, sem eru fulltrúar eigenda hjúkrunarheimilisins. Stofnaðilar Eirar eru Reykjavíkurborg, VR, Seltjarnarneskaupstaður, Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands, Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra minnissjúkra, Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði, Umönnunar- og hjúkrunarheimilið Skjól, Hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, Efling stéttarfélag, SÍBS og Mosfellsbær. Það er fulltrúaráð Eirar sem kýs stjórn félagsins.

Magnús segist hafa flutt tillögu í stjórn Eirar um að stjórn Eirar beini því til þeirra sem standa að stofnuninni, að þeir óski eftir því við fulltrúa sem þeir tilnefndu í fulltrúaráð Eirar fyrir árin 2011 til 2015, að þeir segi af sér í fulltrúaráðinu. Magnús segir að Stefán Benediktsson, stjórnarmaður í Eir, hafi beðið um frestun á tillögunni og hann hafi orðið við því. „Ég fagna því að málið er komið í þennan farveg eins og mín tillaga stefnir að,“ segir Magnús.

Tillagan sem Magnús lagði fram í stjórn Eirar á þriðjudaginn var eftirfarandi: „Með vísan til þeirra erfiðleika sem komnir eru upp í rekstri Eirar og til að auðvelda vinnu við lausn á þeim vanda, beinir stjórn Eirar því til þeirra sem standa að stofnuninni, að þeir óski eftir því við fulltrúa sem þeir tilnefndu í fulltrúaráð Eirar (aðalmenn og varamenn) fyrir árin 2011 til 2015, að þeir segi af sér í fulltrúaráðinu. Aðilar að stofnuninni tilnefni síðan nýja fulltrúa í fulltrúaráðið til loka kjörtímabilsins árið 2015,  samkvæmt 4. gr. skipulagsskrár Eirar, sem kýs síðan nýja stjórn samkv. 7. gr. skipulagsskrárinnar.“

Stefán Benediktsson, sem situr í stjórn Eirar fyrir hönd Reykjavíkurborg, sagði í fréttum RÚV í kvöld að hann ætlaði ekki að segja sig úr stjórn Eirar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert