Persónuvernd getur ekki tekið til meðferðar kvörtun konu sem fór á tónleika í miðborg Reykjavíkur í vor en hún sakar dyravörð um að hafa brotið á rétti hennar til friðhelgi einkalífs þegar leitað var í veski hennar. Engu að síður leiðbeindi Persónuvernd konunni um næstu skref.
Í kvörtuninni segir að þegar konan kom inn á staðinn hafi karlkyns dyravörður sagt við kvenkyns dyravörð að hún skyldi leita í veski konunnar. Hún hafi ekki verið spurð leyfis heldur hafi dyravörðurinn rifið í veskið og leitað í því.
Persónuvernd segir kvörtun konunnar ekki lúta að meðferð upplýsinga á skráðu formi. Af því leiði að Persónuvernd geti ekki tekið kvörtunina til meðferðar, enda falli hún utan valdsviðs hennar. „Hins vegar skal áréttað að samkvæmt 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar má ekki leita í munum fólks nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild,“ segir Persónuvernd engu að síður.
Þá er vísað til 18. gr. reglugerðar nr. 585/2007, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem mælt er fyrir um skilyrði þess að vera dyravörður. „Meðal annars segir í reglugerðarákvæðinu að engir geti gegnt dyravörslu nema þeir sem lögreglustjóri samþykkir.
Af framangreindu leiðir að telji menn dyravörð hafa farið offari er hægt að beina umkvörtunum til lögreglustjóra og er yður hér með leiðbeint um það.“