Boðað var til samstöðufundar við stjórnarráðið kl. 17 í dag þar sem Stefán Jónsson, leikari og leikstjóri, afhenti Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra undirskriftir rúmlega 5.000 Íslendinga sem krefjast þess að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael.
Hópurinn segir að setja eigi viðskiptabann á Ísrael á meðan þarlend stjórnvöld þverbrjóti alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna - og viðhaldi áratugalöngu hernámi sínu í Palestínu.
Það var Félagið Ísland-Palestína sem boðaði til samstöðufundarins og meðmæla með mannréttindum, réttlæti og friði á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru um 80 manns samankomnir á fundinum nú síðdegis.
Takmark Stefáns þegar söfnunni var hrundið af stað fyrir nokkrum dögum var að ná 5.000 undirskriftum og þær eru nú 5.600 talsins.