Laun hjúkrunarfræðinga rædd á Alþingi

Frá samstöðufundi hjúkrunarfræðinga við Landspítalann í Fossvogi
Frá samstöðufundi hjúkrunarfræðinga við Landspítalann í Fossvogi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Launakjör hjúkrunarfræðinga og uppsagnir þeirra á Landspítalanum voru ræddar við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun. „Það skyldi þó ekki vera að þessi fjölmenna kvennastétt sitji eftir hjá norrænu velferðarstjórninni vegna þess að það eru konur sem þiggja þessi laun?“ spurði Vigdís Hauksdóttir.

Fjórir þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna vöktu máls á launakjörum hjúkrunarfræðinga þegar störf þingsins voru rædd við upphafi þingfundar í morgun. „Nú berast af því fréttir að hjúkrunarfræðingar séu í umvörpum að segja upp störfum. Tel ég það slæmar fréttir,“ sagði Vigdís Hauksdóttir og benti á að stofnanasamningar hjúkrunarfræðinga á Landspítala hafi ekki verið endurnýjaðir eins og heilbrigðisráðherra gaf loforð um. Brotthlaupið af spítalanum skýrist m.a. af því.

Skorað á forsætisráðherra

Hér á landi starfa um 2800 hjúkrunarfræðingar, meirihlutinn konur. Vigdís sagði að þessi hópur samsvaraði nákvæmlega heildarþörfinni í Noregi. „[Norðmenn] vantar núna tæplega 3000 hjúkrunarfræðinga til starfa. Þetta eru alvarleg tíðindi, sérstaklega í ljósi þess að Norðmenn eru að sækja í hjúkrunarfræðinga hér enda eigum við frábært starfsfólk.“

Vigdís benti á að launaflokkar ríkisins væru 18 en hjúkrunarfræðingar væru fastir í flokkum 6-7. „Með einu handtaki væri hægt að færa þessa stétt upp um flokk og verðleggja raunverulega verðmæti þeirra starfi sem þau inna af hendi.“ Sagði hún einkar sérkennilegt að hjúkrunarfræðingar byggju enn við svo bág kjör í ljósi þess að ríkisstjórnin hafi farið fram með mikil loforð um launajafnrétti. Hún minnti á að valdið væri hjá ríkisstjórninni. 

„Ég skora á forsætisráðherra, sem hefur alla tíð verið talsmaður jafnréttis, að semja við hjúkrunarfræðinga, þessa fjölmennu kvennastétt, og sýna það í verki að hún meini það sem hún segir.“

11 launaflokkar upp á að hlaupa

Flokksbróðir hennar Sigurður Ingi Jóhannsson tók undir með Vigdísi og sagði ríkisstjórnina nú hafa tækifæri til að gera myndarlega gangskör að því að leiðrétta laun þessa hóps.. „Hjúkrunarfræðingar raðast hæst í 7. flokk þannig að það eru 11 launaflokkar eftir. Það er merkilegt ef við verðleggjum þessi störf ekki meira en svo,“ sagði Sigurður Ingi. „Hér er tækifæri fyrir ríkisstjórnina að sýna frumkvæði í verki en setja málið ekki bara í nefnd í lok kjörtímabilsins.“

Árni Þór Sigurðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tóku undir sama mál og sögðu kynbundinn launamun meinsemd í samfélaginu sem þyrfti að uppræta. „Það er óþolandi að við séum enn að kljást við þetta á þeirri öld sem nú er uppi,“ sagði Guðfríður Lilja. 

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Ómar
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert