Óttuðust að þakið mynd hrynja

Rækjuvinnslan á Skagaströnd var nánast að hverfa undir snjó.
Rækjuvinnslan á Skagaströnd var nánast að hverfa undir snjó. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þetta er búið að vera ótrúlegt ástand,“ segir Bjarni Ottósson, varaformaður björgunarsveitarinnar Strandar á Skagaströnd, en margir bílar og nokkur hús í bænum snjóuðu áí kaf í vikunni. Félagar í sveitinni hafa m.a. þurft að bjarga fólki út úr húsum sínum.

Snjó kyngdi niður á Mið-Norðurlandi í byrjun vikunnar. Bjarni sagði að snjóað hefði í norðanátt í stilltu veðri og vegna þess hversu lítill vindur var hefði hlaðist upp gríðarlega mikill snjór á Skagaströnd. Á flötu þaki rækjuvinnslunnar í bænum hefði t.d. verði 1,5-1,7 metra þykkt snjólag. Eftir að hlánaði í gær hefðu menn óttast að þakið myndi hrynja undan blautum snjónum og því hefðu björgunarsveitarmenn verið fengnir til að moka snjó af þakinu.

„Þetta var óhemju mikil vinna,“ sagði Bjarni. Hann sagði að það hefði ekki bara verið þök húsa sem voru í hættu í hlákunni. Bílar bæjarbúa hefðu flestir verið á kafi undir tveggja metra þykku snjólagi. Menn hefðu haft áhyggjur af því að þeir myndu skemmast þegar blotnaði í snjónum.

Bjarni sagði að búið væri að ryðja allar götur í bænum en erfitt væri fyrir fólk að geyma bíla sína í götunum. „Það eru nánast allir bílar bæjarbúa komnir á tvö bílastæði niður við félagsheimilið sem búið er að ryðja.“

Bátur við það að sökkva vegna snjókomu

Eitt af því sem sjómenn á Skagaströnd hafa þurft að eiga við í snjókomunni er að verja báta sína og koma í veg fyrir að þeir sökkvi þegar þeir fyllast af snjó. Bjarni sagði að björgunarsveitarmenn hefðu í vikunni hjálpað einum smábátasjómanni að moka úr bát, en báturinn hallaði upp að bryggjunni og var við það að sökkva. Eftir að því var lokið hélt eigandinn áfram að moka, því að áfram hélt að snjóa. Eftir nokkurra klukkustunda mokstur fór sjómaðurinn heim til að hvíla sig. „Þegar ég kom síðan aftur niður á bryggju var báturinn orðinn fullur af snjó og það var aðeins um 10 mínútur í að hann myndi sökkva,“ sagði Bjarni.

Samtals fékk björgunarsveitin Strönd 36 beiðnir í vikunni. Þær voru ekki aðeins um að moka snjó af þökum, frá húsum, bílum og úr bátum. Þeir aðstoðuðu fólk líka við að komast til og frá vinnu og að koma börnum úr og í skóla. Margir þurftu líka aðstoð eftir að hafa fest bíla sína í bænum og í nágrenni við hann. Bjarni sagði að mikið væri búið að snjóa úti á Skaga og þar hefði fólk átt í miklum erfiðleikum við að komast leiðar sinnar.

Björgunarsveitarmenn víðar á Norðurlandi hafa sinnt fjölda beiðna í vikunni vegna fannfergisins. Verkefnin eru af svipuðum toga og á Skagaströnd, þ.e. að losa fasta bíla úr snjó, aka fólki til vinnu, moka snjó úr bátum og fólk út úr húsum sínum. Einnig hefur verið töluvert um að moka hafi þurft snjó af húsþökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert