Sendir frekari gögn um áform sín

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Zhongkun Grímsstaðir ehf., sem sótt hefur um leyfi til að reisa hótel á leigulóð í landi Grímsstaða á Fjöllum, hefur tilkynnt nefnd fjögurra ráðherra að félagið hyggist leggja fram frekari gögn vegna umsóknar sinnar.

Í bréfi félagsins til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra segir að um leið hafi verið óskað eftir því að ráðherranefndin taki ekki afstöðu til fyrirhugaðs fjárfestingarsamnings milli Zhongkun og íslenskra yfirvalda fyrr en þau hafa verið lögð fram.

„Í ljósi umræðu og ábendinga, sem fram hafa komið á þeim tíma sem viðræður hafa staðið yfir, vill Zhongkun leitast við að skýra áform sín frekar og kynna ítarlegar þegar framangreind gögn vegna áforma félagsins um fjárfestingu í íslenskri ferðaþjónustu liggja fyrir.

Zhongkun heldur áfram að vinna að verkefninu í sátt og samvinnu við hlutaðeigandi yfirvöld, þakkar fram komnar ábendingar og mun skýra áætlanir sínar með ítarlegri gögnum á næstunni,“ segir í fréttatilkynningu sem Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun, sendi fjölmiðlum.

„Félagið ítrekar að það telur verkefnið afskaplega gott verkefni fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi sem og íslenskan ferðamannaiðnað í heild, sem og að sjálfsögðu fyrir félagið sjálft,“ segir í bréfi Halldórs til ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert