Stefnt að langtímasamningi

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Júlíus

Staðfestur hefur verið sameiginlegur vilji velferðarráðuneytisins og stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) um að slökkviliðið sinni áfram sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfshópi verður falið að undirbúa grundvöll langtímasamnings um þjónustuna og er honum ætlað að skila tillögum sínum fyrir 15. desember næstkomandi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Þar segir að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík og formaður stjórnar SHS, hafi í morgun lagt fram sameiginlega tillögu um form og meginmarkmið samningaviðræðna sem stjórn SHS hafi samþykkt.
 
Samningur við SHS um sjúkraflutninga rann út um síðustu áramót og er ágreiningur um hve mikið þarf að hækka heildargreiðslur fyrir þjónustuna. Fram kemur, að ánægja ríki með þá þjónustu sem SHS hafi veitt og er sterkur vilji aðila til þess að ná samkomulagi um framhald sjúkraflutninga á vegum SHS með samningi til fimm ára að lágmarki.
 
„Stofnendur og eigendur SHS eru sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarneskaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes. Samkomulag er um kostnaðarskiptingu sveitarfélaga og ríkisins vegna sjúkraflutninganna miðað við núverandi rekstrarfyrirkomulag.
 
Í samræmi við tillögu velferðarráðherra og borgarstjóra verður skipaður fjögurra manna starfshópur með tveimur fulltrúum frá hvorum samningsaðila; SHS og ríkinu, en Sjúkratryggingar Íslands fara með samningsumboðið fyrir hönd hins opinbera. Verkefni hópsins verður að gera kostnaðargreiningu og leggja fram drög að nýjum samningi fyrir 15. desember næstkomandi,“ segir í tilkynningu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert