Undirstrikar óvissu um styttri lánin

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Dómur sem féll í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur um útreikning gengisláns hjá SP-fjármögnun gengur þvert á niðurstöður héraðsdóms sem féll 8. nóvember í sambærilegu máli. Helgi Sigurðsson, lögmaður SP-fjármögnunar, segir þetta sýna að enn sé mikil óvissa um útreikning lánanna. Hann segir ábyrgðarleysi að líta svo á að fullnaðarkvittanir víki frá meginreglunni um fullar efndir þegar um lán til skamms tíma er að ræða.  Nauðsynlegt sé að bíða niðurstöðu Hæstaréttar.

Dómurinn sem féll í dag fjallaði um gengistryggt bílalán sem Plastiðjan tók hjá SP-fjármögnun, en dómurinn féll SP-fjármögnun í vil. Dómurinn sem féll 8. nóvember fjallaði einnig um gengistryggt bílalán SP-fjármögnunar til fyrirtækisins Samvirkni. Sá dómur féll Samvirkni í vil. Helgi segir að lánasamningarnir í báðum þessum málum séu sambærilegir.

Helgi segir að í máli Plastiðjunnar vísi dómarinn til útreikninga Hæstaréttar í dómi Borgarbyggðar sem féll í október sl. Dómarinn bendir á að endurreikningur samkvæmt viðmiði í Borgarbyggðar-dómnum hafi falið í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir tímabilið upp á rúmlega 244 þúsund. „Sú fjárhæð er hvorki umtalsverð í krónum talið né í samanburði við upphaflega lánsupphæð sem var liðlega 4.500.000 krónur,“ segir í dómnum.

Helgi segir að þessi upphæð hafi ekki verið talin nægjanlega há til að víkja frá þeirri meginreglu að kröfuhafinn eigi að fá fullar efndir á greiðslu. Í þessu máli Borgarbyggðar var hlutfallið 28%. Í svokölluðu Elviru-máli var þetta hlutfall 34%, en í þessu máli var hlutfallið 5,4%.  

Ekki hægt að hefja endurútreikning lánanna

„Staðreyndin er sú að í styttri samningum er afborgunarhlutfallið miklu hærra en í lengri samningnum í upphafi lánstímans. Það leiðir til þess að sú fjárhæð sem Hæstiréttur miðar við verður miklu lægri, enda hefur Hæstiréttur vísað til þess í sinum forsendum að lengd lánstímans skipti máli.  Þessi dómur undirstrikar það sem m.a. Fjármálaeftirlitið hefur bent á að ennþá sé óvissa um hvaða afleiðingar fullnaðarkvittanir hafi þegar um styttri samninga er að ræða. Það er þess vegna algerlega fráleitt af hálfu forsætisráðherra og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að gera þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þeir eigi fylgja dómum og reikna út lánin að nýju. Til hvaða dóma er verið að vísa ? Er átt við dóminn sem féll í dag eða einhvern annan dóm? Það er óhjákvæmilegt að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar varðandi gildi fullnaðarkvittana í styttri samningum eins og var niðurstaða samráðshóps lántaka og lánveitenda eftir dóm Hæstaréttar í febrúar,“ segir Helgi.

Helgi segir að þeir sem eru að stýra fjármálafyrirtækjum í dag beri ábyrgð samkvæmt lögum, þ.e. gagnvart hluthöfum og kröfuhöfum þessara félaga og verða að miða sínar ákvarðanir við það. 

Helgi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður
Helgi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert