Vilja slíta stjórnmálasambandi

Ísraelskir hermenn við landamærin við Gaza.
Ísraelskir hermenn við landamærin við Gaza. SAID KHATIB

Sex alþingismenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um að slíta stjórnmálatengsl við Ísraelsríki og banna innflutningi á ísraelskum vörum.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Birgitta Jónsdóttir, en aðrir flutningsmenn eru Þór Saari, Lilja Mósesdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Atli Gíslason.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að slíta öll stjórnmálatengsl við Ísraelsríki, leggja bann við innflutningi á ísraelskum vörum og hvetja ríkisstjórnir annarra Norðurlanda til hins sama,“ segir í tillögunni.

Í greinargerð með tillögunni segir að Gaza-svæðið hafi verið kallað stærstu fangabúðir heims. Á annað hundrað manns hafi fallið í loftárásum undanfarið og eru tugir barna þar á meðal. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi sagt að ástandið á spítölum á Gaza sé orðið skelfilegt, þar skorti allar nauðsynjar og allar deildir séu yfirfullar af fólki sem hafi særst í árásunum.

„Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi. Mælirinn er fyrir löngu orðinn fullur. Nauðsynlegt er að bregðast við með afdráttarlausum hætti og senda ísraelskum stjórnvöldum skýr skilaboð um að þær reglur sem þjóðir heimsins hafi komið sér saman um skuli virtar,“ segir í tillögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka