Atli Gíslason alþingismaður hefur lagt fram breytingartillögu á Alþingi við tillögu um rammaáætlun. Tillagan gerir ráð fyrir að átta skilgreindir virkjanakostir verði færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk.
Tillaga Atla gerir ráð fyrir að eftirtaldir virkjanakostir verði færðir í biðflokk:
a. „Reykjanesskagi, Reykjanessvæði, 62 Stóra-Sandvík“,
b. „Reykjanesskagi, Svartsengissvæði, 63 Eldvörp“,
c. „Reykjanesskagi, Krýsuvíkursvæði, 64 Sandfell“,
d. „Reykjanesskagi, Krýsuvíkursvæði, 66 Sveifluháls“,
e. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 69 Meitillinn“,
f. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 70 Gráuhnúkar“,
g. „Reykjanesskagi, Hengilssvæði, 71 Hverahlíð“,
h. „Norðausturland, Námafjallssvæði, 97 Bjarnarflag“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgöngunefndar, Birgir Ármannsson og Árni Johnsen, leggjast gegn því að tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða nái fram að ganga óbreytt.
„Tillagan í þeirri mynd sem umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra gengu frá í vor og meiri hluti nefndarinnar leggur nú til að verði samþykkt óbreytt getur ekki orðið sá grundvöllur að víðtækri sátt um langtímaáætlun á þessu sviði sem að var stefnt í upphafi.
Annar minni hluti lítur ekki svo á að með samþykkt rammaáætlunar verði með öllu komið í veg fyrir ágreining um einstakar virkjunarframkvæmdir eða togstreitu milli nýtingar- og verndarsjónarmiða almennt. Engu að síður getur rammaáætlun sem byggist á faglegum vinnubrögðum sem sátt er um orðið til þess að draga verulega úr deilum og auðvelda áætlanagerð bæði opinberra aðila og einkaaðila til lengri tíma. Rammaáætlun þar sem vikið er frá faglegum niðurstöðum á pólitískum eða hugmyndafræðilegum forsendum nær ekki þeim tilgangi og verður fyrir vikið skammlífari en ella,“ segir í nefndaráliti Birgis og Árna.