Lokuðu Krýsuvíkurvegi vegna hálku

Flughálka er á Suðurstrandarvegi og er búið að loka Krýsuvíkurvegi vegna flughálku.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að ennþá séu miklar líkur á hálkumyndun um allt land. Í dag snýst norðan og vestanlands í norðlæga átt, með snjómuggu á norðanverðum Vestfjörðum í dag, en í kvöld á norðvesturlandi austur fyrir Eyjafjörð. Færð á þessum slóðum getur því verið varasöm þar sem snjóar ofan í ísilagða vegi.

Hálkublettir eru á Hellisheiði. Hálka eða hálkublettir eru mjög víða á Suðurlandi og einhver éljagangur í uppsveitum. Varað er við flughálku á Suðurstrandarvegi og búið er að loka Krýsuvíkurvegi vegna flughálku.

Um vestanvert landið er hálka á Bröttubrekku, Fróðárheiði og sunnanverðu  Snæfellsnesi. Snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði. Hálka eða hálkublettir eru mjög víða á láglendi.

Á Vestfjörðum er snjóþekja og éljagangur á Steingrímsfjarðarheiði, snjóþekja er á Þröskuldum, Hálfdáni, Kleifarheiði, Hjallahálsi og Klettshálsi. Annars er víða hálka eða hálkublettir. Hálka er á Gemlufallsheiði.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir á vegum. Éljagangur er á fjallvegum. Útblönduhlíð er flughált. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka á Skeiðarársandi og snjóþekja vestan við Kirkjubæjarklaustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert