Stofnfundur Pírata stendur nú yfir í Grasrótarmiðstöðinni í Brautarholti. Á fjórða tug manns var þar samankominn þegar fundurinn hófst kl. 14. Þar verða grunngildi flokksins kynnt ásamt drögum að lögum félagsins. Þá verður kosið í framkvæmdaráð.
Fram kemur í tilkynningu að Píratar séu stjórnmálaafl sem berjist fyrir beinu lýðræði, raunverulegu gegnsæi og ábyrgð í stjórnkerfinu, auknu aðgengi að upplýsingum, upplýsingafrelsi og endurskoðun höfundarréttar. Þá segir að mikil þörf sé á nýjum flokki á Íslandi sem taki mið af þörfum nútímans.
„Pirate Party er alþjóðleg pólitísk hreyfing sem var stofnuð í Svíþjóð 2006. Í dag eru píratahreyfingar í yfir 60 löndum, en flokkurinn hefur rúmlega 170 sveitarstjórnarmenn, 40 þingmenn og tvo Evrópuþingmenn. Píratapartýið er vettvangur fyrir alla sem vilja taka þátt í að móta samfélag sitt í raun- og netheimum og ræða breytingar á frjálsan og óheftan hátt með aðstoð tækninnar fyrir opnum tjöldum,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að tillögur um lagabreytingar og framboð til framkvæmdaráðs flokksins verða færð inn á http://wiki.is.pirate.is/index.php/Stofnfundur þar sem hægt verði að kynna sér frambjóðendur til framkvæmdaráðs flokksins og efni fundarins. Hlutverk framkvæmdaráðs sé að sjá um daglegan rekstur, og er hvorki tæki til valda né upphefðar.