Straumnum við höfnina um að kenna

Herjólfur við Landeyjarhöfn í Vestmannaeyjum.
Herjólfur við Landeyjarhöfn í Vestmannaeyjum. Rax / Ragnar Axelsson

„Við lentum í straum þarna fyrir utan höfnina. Hann bar skipið af leið og önnur skrúfan tekur niður í vestari hafnargarðinum og laskast við það,“ segir Gunnlaugur Grettisson rekstarstjóri Herjólfs um óhapp sem átti sér stað við Landeyjarhöfn í Vestmannaeyjum. 

Að sögn Gunnlaugs lenti skrúfa skipsins annað hvort í kanti hafnarinnar eða slóst í staur sem þar er. Hann segir jafnframt að engin tengsl séu á milli þess þegar hnúfubakur lenti í skrúfu skipsins fyrr í vikunni og óhappsins í dag.  

„Þetta er straumurinn sem er fyrir utan höfnina sem er að gera okkur lífið leitt og hefur verið að gera okkur lífið leitt frá því Herjólfur hóf siglingu í júlí árið 2010,“ segir Gunnlaugur. 

Þegar þetta er skrifað er Herjólfur á leið til Þorlákshafnar þrátt fyrir óhappið. „Við getum siglt við góðar aðstæður eins og nú eru til siglinga til Þorlákshafnar. Við getum hins vegar ekki siglt svona til langframa og ekki til Landeyjarhafnar. Þá þurfum við að vera með fullt afl í báðum skrúfum skipsins,“ segir Gunnlaugur. 

Herjólfur verður sendur í slipp á mánudag til lagfæringar. 

Gunnlaugur Grettisson.
Gunnlaugur Grettisson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert