Teppi grænþörunga, sem var á stórum svæðum á botni Mývatns virðist vera að hverfa. Sömu sögu er að segja af kúluskít, sem er eitt vaxtarform grænþörungs í vatninu, og var friðaður fyrir sex árum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þar sem kúlurnar voru áður í breiðum og töldust margar milljónir er nú áætlað að aðeins séu nokkur þúsund.
Árni Einarsson líffræðingur segir að þessi breyting sé hluti af langtímaþróun. Sveiflur í lífríkinu í og við Mývatn með toppum og botnum á sjö ára fresti eru ekki nýjar af nálinni. Lægðirnar hafa hins vegar orðið dýpri á síðustu árum, og erfiðari fyrir bleikju og þær fjölmörgu andategundir sem er að finna á Mývatni.