Fáist undanþága mun ferjan Baldur leysa Herjólf af meðan á slipptöku Herjólfs stendur. Gert er ráð fyrir því að Baldur hefji siglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á morgun, mánudag.
Fram kemur í tilkynningu, að ef áætlun gangi upp muni Baldur sigla fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum á morgun, mánudag, kl. 17:30 og eftir það skv. vetraráætlun til Landeyjahafnar þar til Herjólfur kemur aftur í siglingar.
Farþegar eru beðnir um að sýna biðlund meðan allir hnútar sé hnýttir. Tilkynning um stöðu mála muni verða send út um leið og hægt sé.
„Við viljum einnig þakka farþegum okkar fyrir tillitssemina sl. sólarhring. Samgöngur milli lands og Eyja eru gríðarlega mikilvægar og um leið og ljóst var að Herjólfur þyrfti að fara í slipp hafa starfsmenn Vegagerðarinnar og Eimskip og nú einnig Sæferða og Siglingastofnunar unnið að lausn á málinu sem nú er að líta dagsins ljós aðeins sólarhring eftir að óhappið varð.
Farþegar eru vinsamlegast beðnir að fylgjast með fréttum á herjolfur.is, á facebook síðu Herjólfs og síðu 415 í textavarpi RUV,“ segir í tilkynningu.