Birgitta Jónsdóttir var kjörin formaður framkvæmdaráðs Pirata-flokksins á stofnfundi flokksins í gær. Birgitta segist vera hæstánægð með hversu vel fundurinn tókst.
„Ég er hæstánægð með hvað margir mættu og hvað var frábær stemning meðal fundargesta ljóst er að grunnstefna Pirata höfðar til margra, sér í lagi ungs fólks. Við munum leggja höfuðáherslu á að kynna grunnstefnuna fyrir landsmönnum og hvetjum venjulegt fólk til að stíga um borð og taka þátt,“ sagði Birgitta í lok fundar.
Amilia Andersdotter, annar Evrópuþingmaður sænskra Pírata og jafnframt yngsti þingmaður Evrópuþingsins sendi fundinum kveðju í formi myndbands þar sem hún óskaði íslenskum Pírötum góðs gengis og sagðist vonast til að fundurinn væri gott upphaf á íslenskri píratahreyfingu.
Eftirfarandi voru kjörnir í framkvæmdaráð flokksins: Birgitta Jónsdóttir, Björn Þór Jóhannesson, Halldóra Mogensen, Jason Scott og Stefán Vignir Skarphéðinsson. Auk þess voru Herbert Snorrason og Einar Valur Ingimundarson valdir í framkvæmdaráðið samkvæmt slembiúrtaki.