„Ég er ekki ómissandi“

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

„Útslitin eru vonbrigði, ég setti markið hærra og það eru alltaf vonbrigði að ná ekki markmiðum sínum,“ segir Björn Valur Gíslason sem endaði í sjöunda sæti í forvali VG í Reykjavík.

Þetta kemur fram í viðtali við Björn Val í Vikudegi. Björn Valur segir viðbúið að það yrði snúið að koma sér fyrir í nýju kjördæmi. „Ég á ekki þétt bakland í Reykjavík, þ.e. hvorki fjölskyldu né ættmenni sem gátu stutt mig. Ég óskaði einfaldlega eftir áliti almennra félagsmanna Vinstri grænna í Reykjavík á störfum mínum og vilja til að starfa í þeirra umboði. Þeim leist ekki á það og ekkert við því að segja.“

Björn Valur segir að það hafi ekki verið mistök að bjóða sig fram í nýju kjördæmi, en hann er þingmaður VG í NA-kjördæmi. „Nei, það voru ekki mistök. Ég tel að Reykvíkingar eigi ekki að sætta sig við neitt minna en þrjá Vinstri græna þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Að því á flokkurinn að stefna í borginni, ekkert minna. Ég taldi mig geta lagt því lið en það geta líka aðrir gert og það varð niðurstaðan. Ég er ekki ómissandi ef einhver heldur það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert