Engan sakaði þegar lítill bátur strandaði í klettum við Straumnes norðan við Aðalvík á Vestfjörðum í kvöld. Tveir menn voru um borð í bátnum og bíða þeir nú eftir að verða sóttir. Björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæsunnar eru á leiðinni.
Björgunarskip- og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum eru nú á leið að Straumnesi þar sem báturinn strandaði fyrr í kvöld. Er nú verið að kanna hvernig verður staðið að björgun mannanna að sögn Gæslunnar.
Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg að klukkan 18:56 hafi skipverjar, sem eru tveir, sent neyðarboð og hafi nærstödd skip þegar verið kölluð á staðinn sem og björgunarsveitir. Eftir neyðarboðin heyrðist ekkert frá skipverjunum og var óttast um afdrif þeirra. Nú fyrir skömmu náði eitt af aðvífandi skipum sambandi við þá í gegnum talstöð. Eru þeir staddir í fjörunni, báðir heilir á húfi. Báturinn marar mölbrotinn í hálfu kafi.
Fyrsta björgunarskipið er væntanlegt á staðinn innan nokkurra mínútna og Þyrla LHG kl. 20:45. Ef hún getur ekki athafnað sig munu björgunarsveitarmenn sækja mennina í fjöruna.
Landhelgisgæslan segir að neyðarkall hafi borist frá bátnum, sem heiti Jónína Brynja frá Bolungarvík, þegar hann var staðsettur norðvestur af Straumnesi. Stjórnstöð Gæslunnar boðaði í framhaldinu út björgunarskip og báta frá Flateyri, Ísafirði, Bolungarvík og Súgandafirði auk þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Vegna lélegs fjarskiptasambands og þar sem báturinn strandaði undir klettabelti náðist ekki samband við áhöfnina fyrr en um kl. 20:00. Voru þeir þá heilir á húfi en báturinn brotinn í fjörunni.